

Markmið fræðslu- og verndarsamtakanna Vatnaverur Íslands er að varða framtíð vatnavistkerfa landsins – í þágu vatnavera og eyþjóðar. Vistkerfi sjávar og ferskvatns á Íslandi eru iðandi af sérstæðum tegundum og fjölbreyttum búsvæðum er gegna lykilhlutverki í að viðhalda vistfræðilegu jafnvægi. Verndun þessara vistkerfa er brýn þar sem þau standa frammi fyrir fjölmörgum ógnum, þar á meðal loftslagsbreytingum, ofveiði, mengun og eyðileggingu búsvæða. Viðleitni til að vernda þessi búsvæði felur í sér endurheimt búsvæða, mengunarvarnaaðgerðir, stofnun verndarsvæða og vitunarvakningu um líffræðilegt og menningarlegt mikilvægi vatnavistkerfa. Dalrún Kaldakvísl náttúrusagnfræðingur, og faðir hennar, Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur, eru drifkrafturinn á bak við frjálsu samtökin Vatnaverur Íslands, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Samtökin hafa skuldbundið sig til að vernda auðugt vatnalíf Íslands með því að styrkja tengsl landsmanna við lífverur í ferskvatni og sjó. Mikilvægur hluti af þeirri viðleitni felst í því að efla tengsl yngstu kynslóða Íslendinga við hafið, ferskvatnið og lífríki þeirra vistkerfa. Það gera samtökin með því að heimsækja grunnskólabörn og fræða þau um vatnalífverur út frá sjónarhorni sögunnar og líffræðinnar. Ennfremur er markmið samtakanna að styrkja tengslin millum Íslendinga og vatnavera með því að búa til heimildarmyndir um lífið undir vatnsborðinu. Félagið rukkar ekki inn félagsgjöld til að tryggja lýðræðislega þátttöku í félaginu óháð fjárhag. Þeir sem vilja ganga í félagið geta sent beiðni á netfangið: vatnaverur@gmail.com
Árið 2025 fræða samtökin grunnskólanemendur um hákarlinn og laxinn í skólaheimsóknum sem bera heitið Fiskar í skólastofunni. Skólabörnum er veitt fræðsla um líf- og vistfræði hákarlsins og laxins og samhliða eru kynnt dæmi um hvernig samspili manna við þær lífverur hefur verið háttað í gegnum aldir Íslandsbyggðar. Heimsóknaverkefnið Fiskar í skólastofunni veitir nemendum alhliða skilning á þessum heillandi verum og er ætlað að auka þekkingu, áhuga og samkennd þeirra með þessum merku fróndýrum.

Stofnandi og stjórnandi, Dalrún Kaldakvísl, náttúrusagnfræðingur
Meðstjórnandi, Jóhannes Sturlaugsson, líffræðingur

Samtökin hlutu rekstrarstyrk frá Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytinu árið 2025