top of page
Hákarl_The Greenland shark _(Somniosus microcephalus)_.png

Hákarlinn: saga og atferli

Höfundur efnis:

Dr. Dalrún Kaldakvísl, dýrasagnfræðingur

Hakarl-Arni_Fridriksson (veiddur i troll)-Mynd_Johannes_Sturlaugsson copy.JPG
Hakarl-Arni_Fridriksson (veiddur i troll)-Mynd_Johannes_Sturlaugsson copy.JPG

Hákarlavernd

Íslendingum ber að varða hag sjávarins ef sjórinn á að varða hag þeirra, svo vitnað sé í hinn frækna 19. aldar hákarlamann Sæmund Sæmundsson (1869-1958) sem sagði eitt sinn um sjóinn í kjölfar þess að hann var nærri því búinn að taka syni hans: „Skyldi honum þykja ég vera búinn að sækja í hann nóg, án þess að hafa goldið honum annað í staðinn en fiskblóð og svita?“

 

Loftslagsrannsóknir sýna að hafið og líffræðilegur fjölbreytileiki þess gegnir meginhlutverki hvað varðar heilbrigði lofthjúps jarðar. Hinn djúpsækni hákarl (Somniosus microcephalus) er langlífasta hryggdýr jarðarinnar sem getur orðið mörg hundruð ára gamalt og allt að sjö metrar á lengd. Hákarlinn er ránfiskur efst í fæðuvef Norður-Atlantshafsins og Norður-Íshafsins, og kemur því með beinum hætti inn í þá mikilvægu umræðu sem tengist heilbrigði hafsins. ​Vísindamenn telja að hákarlastofninn hafi minnkað um 30-49% á síðustu 450 árum, öðru fremur vegna sögulegra olíuveiða. Þrátt fyrir áætlaða 3% vexti á stofninum á síðustu öld leggja vísindamenn áherslu á að hákarlastofninn sé enn berskjaldaður gagnvart ofveiði vegna lítils vaxtarhraða og seinbúins kynþroska (hrygnurnar ná yfirleitt kynþroska um 156 ára aldur). Afkvæmi hákarlsins þroskast inni í móðurinni og fæðast lifandi eftir um það bil 8-18 ára meðgöngu, en áætlað er að ein hrygna getur fætt allt að tíu lifandi unga. Viðkvæm staða hákarlsins sýnir mikilvægi hvers einstaklings og undirstrikar þörfina fyrir tafarlausar verndunaraðgerðir í þágu þessa fallega og tignarlega fisks sem er einn elsti og fegursti skúlptúr hafsins.

 

Vísindamenn hafa bent á auknar ógnir gagnvart tilvist hákarlsins vegna loftslagsbreytinga. Talið er að 50% af ísnum á norðurslóðum eigi eftir að bráðna á næstu 100 árum sem gefur fiskiskipaflotum meiri aðgang nyrstu hafsvæðunum  – nokkuð sem mun hafa geigvænleg áhrif á hákalarstofninn. Bein sókn í hákarl er sjaldgæf í dag og því líklegast mjög lítill áhrifaþáttur hvað varðar stærð hákarlastofnsins. Hið sama er þó ekki hægt að segja um meðveiðar á hákarlinum. Hákarlinn kemur í dag fyrst og fremst við sögu veiða sem meðafli við togveiðar á öðrum fisktegundum sem hefur sín áhrif á hnignun stofnsins. Metið hefur verið að um 3.500 hákarlar veiðist árlega sem aukaafli við þær verksmiðjuveiðar í hinum norðlægu heimskauta-höfum, en ætla má að það magn sé mun hærra með tilliti til óskráðs meðafla, um það vitna til að mynda viðtöl mín og samtöl við togarasjómenn: „Ég er á sjó við Grænland – í síðasta túr þá gæti ég giskað á að það hafi komið milli 40–50 hákarlar hjá okkur, sjö hákarlar í einu hollinu.” Önnur ógnvænleg áhrif á tilvist hákarlsins eru botnvörpuveiðar á hafsbotninn, en sú úrelta veiðitækni hefur um langt skeið eyðilagt búsvæði hákarlsins. Einnig ber að geta þess að sjálfar hákarlaveiðarnar, hvort heldur um ræðir beinar eða óbeinar veiðar á hákarli, raska kolefnishringrásinni  með því að fjarlægja úr hafinu svo stórvaxnar og langlífar lífverur sem fanga kolefni í ríkum mæli – í stað þess að þær lífverur rati á botn sjávar að lífi þeirra loknu þar sem þær leysast upp á löngum tíma, náttúrunni í hag. 

 

Samkvæmt Fiskistofu gilda engar sérstakar reglur í tengslum við veiðar á hákarli hvort heldur um ræðir hefðbundnar hákarlaveiðar eða veiðar á hákarli sem meðafla, ólíkt því sem tíðkast um friðaðar tegundir háfiska í fiskveiðilandhelgi Íslands (beinhákarl; hámeri; háfur). Í dag er hákarlinn í svo slæmri stöðu á alþjóðavísu að hann er skilgreindur af IUCN sem berskjölduð (e. vulnerable) tegund. Árið 2022 lagði Northwest Atlantic Fisheries Organization (NAFO) bann við að veiða og hirða hákarlinn á alþjóðlegum hafsvæðum – en þjóðir á borð við Ísland sem banna brottkast á meðafla eru þó hugsanlega undanþegnar þeim ákvæðum. Hlutlaus afstaða Íslendinga gagnvart veiðum á hákarli sem meðafla við togveiðar skarast á við vaxandi neikvæða afstöðu Íslendinga til veiða á öðrum stórvöxnum sjávardýrum; hvölum. Hér kemur margt við sögu, meðal annars ólíkar ímyndir hákarla og hvala meðal almennings sem og að hvalveiðar voru lengst af stundaðar af erlendum þjóðum við Ísland en veiðar á hákarli eru markverður hluti af veiðimenningu Íslendinga. 

Íslendingar búa að ríkri hákarlasögu – sögu sem byggir á margra alda samspili hákarlamanna og hákarlsins á Íslandsmiðum. Það eru fáar þjóðir sem geta státað sig af slíkri tengingu við þennan forna fisk sem enn í dag er sveipaður dulúð. Hákarlaveiðar eru rótgróinn þáttur í íslenskri þjóðarímynd sem endurspeglast meðal annars í matarmenningu okkar og safngripum (hákarlaskip, veiðitól o.fl.) sem við höfum til sýnis sem þjóðminjar okkar – ímynd sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga á tímum aukins ferðmannastraums til landsins. Eins mikilvægt og það er að varðveita hákarlaveiðisöguna og miðla henni áfram, þá er einnig mikilvægt að varðveita þá þætti sem saga sú byggir á; sjálfa náttúruna. Hákarlinn er einkar viðkvæm tegund sökum þess hve seinvaxta hann er og hve gamall hann er þegar hann kynþroskast, nokkuð sem gerir það að verkum að nýliðun hans geldur stórlega fyrir þegar skörð eru höggvin í raðir hans. Sú gríðarlega mikla sögulega veiði sem stunduð var af Íslendingum og öðrum þjóðum á hákarlinum fyrir lýsið sérílagi á 17. öld til miðbiks 20. aldar vóg að stöðu hákarlsins. Í dag eru það  áhrif loftslagsbreytingar og togveiðar sem setja hákarlinn hvað mest í hættu. Það er geigvænlegt því hákarlinn er einkar mikilvægur liður í ríki hafsins, því hann er topprándýr og viðheldur því jafnvægi í hafinu; líffræðilegum fjölbreytileika.

 

Íslendingum ber að varða hag hákarlsins. Hákarlinn á að vera hluti af viðleitni okkar Íslendinga hvað náttúruvernd varðar; við sem erum umkringd hafinu og hákörlum. Sögulegt samband Íslendinga og hákarlsins er einstakt á alþjóðavísu. Af því leiðir, að Ísland er í sérstöðu hvað viðkemur að leiða verndun á fornvini okkar gegn veiðum á honum sem meðafla; á grunni sögu okkar, þekkingu og tengslum. Víst er að við Íslendingar stöndum í þakkarskuld við fornan vin okkar hákarlinn sem reyndist lífsbjörg fyrir formæður okkar og forfeður, ekki síst á harðindaárum. En nú á tímum er engin þörf fyrir nútímans Íslendinga að sækja sér prótein í villta náttúru, hvað þá í formi langlífasta hryggdýrs heimsins; topprándýrs sem kynþroskast eftir 156 ár – og sökum hás aldurs er uppfullt af kvikasilfri sem er einkar skaðvænlegt fyrir menn að innbyrða.

Megi  hin sögulega hákarlaveiðiþjóð Íslands gerast hákarlaverndarþjóð í   þágu hákarlsins, hafsins og komandi kynslóða. 

Hákarl_The Greenland shark (Somniosus microcephalus)_.png
Dalrún Kaldakvísl animal historian_vatnaverur íslands_Icelandic aquatic animals_icelandic

Hákarlaveiðar

Á hinum sögulegu hákarlamiðum fortíðarinnar leituðu hákarlamenn uppi og fönguðu hinn dularfulla djúpsjávarfisk, hákarlinn, öld fram af öld. Talið er að hákarlveiðar hafi verið stundaðar á Íslandi allt frá fyrstu öldum byggðar hér á landi. Fram eftir öldum nýttu Íslendingar hold hákarlsins til matar og hagnýttu lýsið úr hákarlslifrinni sem ljósmeti.  Á 17. 18. og 19. öld verða síðan ákveðin vatnaskil í hákarlaveiðisögunni þegar hákarlamenn fóru að veiða hákarlinn fyrst og fremst fyrir lifrina/lýsið til að selja erlendum mörkuðum. Á þeim tíma var lýsið verðmæt útflutningsvara sökum mikillar eftirspurnar erlendis;  fitan úr lifur hákarlsins var notuð til að lýsa upp erlendar borgir, uns steinolían kom til sögunnar og þörfin fyrir hákarlalýsið rénaði. Segja má að uppgangstími hákarlaveiða á 19. öldinni hafi verið eins konar olíugróskutímabil (e. oil rush) Íslendinga; er íslenskir hákarlmenn drógu ljósgjafann hákarlinn í miklum mæli úr myrkum undirdjúpunum. Hákarlinn og hans lýsi spilaði því sannarlega sína rullu í iðnbyltingunni fyrir utan landsteinanna. 

 

Lengi fram eftir öldum var hákarlinn lítt sýnilegur í ritheimildum og þegar hann birtist í heimildum á annað borð, þá eru það iðulega lýsingar af honum í afurðarformi (kæstur hákarl). Það er ekki fyrr en íslenskur almenningur fer að skrá æviminningar sínar í meiri mæli að hákarlinn fer lokst að birtast ítrekað í lifanda lífi á spjöldum sögunnar. Hér er vísað til endurminningaskrifa sjómanna sem fóru á hákarlaveiðar á 19. öldinni; skrifum sem ætlað var að skila í hús upplýsingum um horfna veiðihætti þegar að hákarlaveiðar voru stundaðar á árabátum og þilskipum. Í einum slíkum skrifum, merkisbókinni Hákarlalegur og hákarlamenn, skrifar höfundur hennar hákarlamaðurinn Theódór Friðriksson (1876-1948), að endurminningar hákarlamanna feli í sér: „einkennilegan veiðiskap, einkennilega menn og einkennilega tíma – harðneskju talsverða, en þá ekki síður hreysti og karlmennsku.“  Við lestur á endurminningum fyrri tíma hákarlamanna sem stunduðu hákarlalegur bregður fyrir horfnum heimi á hafi úti; merkilegum reynsluheimi manna sem mótaður var af öfgum náttúrunnar. Hákarlveiðar voru hættulegustu og viðsjálustu veiðar 19. aldar því hákarlamenn sóttu langt á hákarlamiðin þar sem þeir lögðust við stjóra og hákarlamenn á árabátum lágu jafnan úti heilu sólahringana – og jafnvel eina til tvær vikur ef aflinn var tregur, en þilskipin gjarnan 2-3 vikur. Hákarlamenn, iðulega bændur og vinnumenn, lögðu gjarnan upp í hákarlalegur á veturnar og vorin. Einn hákarlamaður skrifaði svo um veiðarnar á opnum bátum: „Ekki var það heiglum hent að stunda þessa atvinnu um hávetur á opnum skipum, þar var ekkert afdrep fyrir stormi ágjöf og snjó, engin upphitun.“ Hákarlamenn þurftu að þola öll veður, hvassviðri, nístingskulda og kafaldsél – og þurftu stundum að eiga í viðureignum við hinn hvíta flota; hafísinn. Líkt og einn hákarlamaður skrifaði: „Það var hart og kalt í hákarlalegunni.“ Annar hákarlamaður fortíðarinnar skrifaði: „Í samanburði við hákarlalegur voru fiskiróðrar eins og skemmtiferðir...“  Aðbúnaður á hákarlaskipum var með öllu dræmur. Á opnu skipunum var ekkert skjól að fá og menn máttu ekki sofna, jafnvel heilu dagana, því hætta gat stafað af kuldanum. Aðbúnaðurinn skánaði þegar skúturnar komu til með tilheyrandi káetuholum og betri aðstöðu til að hita kaffi og mat. En það fór miklum sögum af miklum óhreinindum á hákarlaskipum þar sem ódaunn af rotnandi hákarlalifur lá í loftinu og almennt áhugaleysi hákarlamanna á þrifum bætti ekki úr skák. Þekkt er að hákarlamenn lentu oft í sjávarháska sökum þess hve langt þeir fóru út og hve lengi þeir voru við veiðarnar. Íslandssagan býr að ótal heimildum af hákarlaskipum sem töpuðust – segja sögur af skipum sem hurfu í sjóinn, sögur af því þegar heilu sveitirnar töpuðu öllum vinnufærum mönnum sínum, þegar konur urðu ekkjur, og föðurlausum börnum var komið fyrir á heimili annarra. Reynslusögur hákarlamanna sýna að mikilvægustu eiginleikar þeirra fyrr á tíð voru álitnir vera andleg og líkamleg seigla og harka. Algengt var að tengja sjómannahæfileika hákarlamanna við líffræðilegt kyn karla og jafnan vísað til karlmennsku hákarlamanna þegar vísað var til hæfileika þeirra. Hákarlamenn fyrr á öldum voru taldir búa yfir meiri karlmennsku en aðrar starfsstéttir karla á Íslandi til lands og sjávar – nokkuð sem kalla mætti hákarlmennsku.

Markaðsveiðar á hákarlinum á 20. og 21. öldinni voru aðallega stundaðar til manneldis og eru enn stundaðar að nokkru leyti í dag, öðru fremur fyrir þorrablót landsmanna. Hákarlaveiðar gerbreyttust á öndverðri 20. öld þegar vélar voru komnar í bátana, ekki lengur sami mannskapur um borð, lína lögð sem beið þess að vera vitjuð einhverjum dögum síðar – og sjávarháskinn ekki sá sami. Samband hákarlamanna við hákarlinn sem lífveru breyttist allmikið á vélbátaöldinni, líkt og kom fram í viðtölum sem höfundur þessara orða, Dalrún Kaldakvísl, tók við sjómenn sem stundað hafa hákarlaveiðar til manneldis á 20. og 21. öldinni. Viðmælendur mínir hákarlamennirnir, lögðu línu sem þeir vitjuðu eftir einn eða tvo daga, og áttu því ekki í þessu nána samspili við náttúruöflin og hákarlinn líkt og fyrirrennnarar þeirra. Hákarlmenn á tímum kvótakerfisins tala gjarnan um hákarlaveiðar sem freslsisveiðar. Víst er að bein sókn í hákarl er fágæt í dag og ekki margir sjómenn sem stunda þá iðju í hjáverkum. Viðtölin við aðila sem stundað hafa slíkar veiðar sýna að vinnusjálfsmynd hákarlamanna á vélbátaöldinni er mun tengdari langvinnri verkuninni á hákarlinum en veiðunum og mennirnir höfðu meiri áhuga á að ræða hákarlinn sem afurð heldur en lífveru. Lýsisveiðar tíðkast ei í dag og viðtöl mín vitna um að lýsisframleiðendur á Íslandi kaupa hákarlalýsi erlendis frá í staðinn fyrir að kaupa og nýta hérlent hákarlalýsi sem stendur til boða.

Hakarl-Arni_Fridriksson (veiddur i troll)-Mynd_Johannes_Sturlaugsson copy.JPG
Dalrún Kaldakvísl animal historian_vatnaverur íslands_Icelandic aquatic animals_icelandic
Hreinn Björgvinsson_hákarlaveiðar_sharkfishing_Iceland_Dalrún Kaldakvísl_ocean oral histor
greenland shark_hákarl_Dalrún Kaldakvísl animal historian_vatnaverur íslands_Icelandic aqu
Greenland shark_hákarl_Dalrún Kaldakvísl_vatnaverur íslands_icelandic water creatures_icel

Afurð

Greenland shark eats a man_eats a whaler_iceland_vatnaverur íslands_kaldakvísl_dalrún.png

Hákarlinn hefur aldrei verið kenndur við mannát þó svo að þjóðsagnir segi frá því að gott hafi verið að beita rauðhærðum börnum eða gömlum kerlingum fyrir hákarl.

Viðhorf til hákarlsins

 

 

 

 

 

 

Hákarlinn sem afurð á ríkan sess í þjóðarmenningunni, en síður hákarlinn í lifandi mynd. Lítið er fjallað um lífveruna hákarlinn í Íslandssögunni, skáldsagnarheiminum, og þjóðsagnarheiminum. Því eru reynslusagnir íslenskra hákarlamanna einkar verðmætar heimildir hvað viðkemur að varpa ljósi á hákarlinn sem lífveru og samband Íslendinga við hann. Þær heimildir byggja á sjaldgæfum minningum manna og einnig kvenna er mættu hákarlinum í lifandi lífi á hafi úti. Sjónarhorn sjósóknara við Ísland í gegnum aldirnar gefur fræðimönnum færi á að dýpka og auðga samband Íslendinga við hin allt umlykjandi höf og vistkerfi þeirra, líkt og minningar hákarlamanna um hafið og hákarlinn eru til vitnis um; samband manna og fiska sem spannar alla leið frá haffletinum niður í hafdjúpin.

 

Samband hákarlamanna og hákarlsins grundvallaðist á veiðunum. Hákarlamennirnir þurftu að þekkja lífveruna hákarlinn, atferli hans og hegðan. Hákarlamennirnir þurftu einnig að þekkja hegðan hákarlsins sem rándýr í því skyni að lokka hann á öngulinn sem og þekkja háttalag hákarlins þegar hann var að endingu orðinn bráð; fastur á önglinum. Ótal heiti sem notuð voru yfir hákarlinn fyrr á tíð vitna um djúpa þekkingu hákarlamanna á hákarlinum með hliðsjón af kyni, kynþroska, stærð, lengd og fleiri þáttum. Í því skyni að fá skýrari mynd af veiðisamband hákarlamanna og hákarlsins fyrir meira en öld síðan, þá skulum við ímynda okkur hákarlamann í skinnklæðum og sjóstakki, bograndi í kulda og náttmyrkri ásamt félögum sínum á árabát sem liggur við stjóra. Hákarlamaðurinn er að veiða hákarl með elsta hákarlaveiðarfæri Íslendinga, handvað. Hann rennir vaðinum í aldimmt dýpið, heldur laust á vaðnum utan við borðstokkinn og bíður þolinmóður uns hákarlinn nartar í beituna á önglinum; hann bíður klukkutímum saman. Í þessum þaulsetuveiðum gerir hákarlamaðurinn það sem hákarlamenn hafa gert um aldir til að stytta sér stundir – hann kveður rímur og fer með vísur. Og hér komum við að mjög áhugaverðum þætti í hákarlaveiðisögunni, að veiðivísum vaðarmanna sem þeir fóru með á meðan þeir sátu undir vaðnum. Með vísum þessum voru hákarlamennirnir hreinlega að ávarpa hákarlinn; þeir voru að lokka hákarlinn á krókinn með orðum sínum.

Þó ég sé magur og mjór á kinn

mana ég þig sláni.

Komdu nú á krókinn minn,

kjaftastóri gráni.

Það að menn ávarpi hákarla í veiðitengdum tilgangi er ærið sjaldgæfur gjörningur á heimsvísu. Til gamans má nefna þekkt dæmi um slíkt samband millum veiðimanna og hákarla er að finna í vissum eyjasamfélögum Papa Nýju Gíneu, þar sem karlmenn kalla hákarla að kanóum sínum svo þeir geta skutlað þá. Íslensku hákarlavísurnar gefa innsýn í bið, eftirvæntingu og spennu veiðimannsins sem bíður eftir að gráni bíti á. Vísurnar búa einnig að húmor sem vitnar um falska samúð veiðimannsins með bráðinni sem hann hyggst hremma.

Hákarlgreyið, heyrðu mér,

hérna niðri sértu,

matinn teygi´ég móti þér,

mikinn feginn vertu.

Fínlegar hreyfingar vaðmannanna og varfærni hákarlsins voru undanfari hamagangsins er tók við þegar hákarlinn nartaði í beituna. Svo var hákarlinn hífður upp úr dýpinu og síðan var borinn krókur í hann og hann dreginn með borðinu og svo skorinn. Iðulega hirtu menn aðeins lifrina á lýsisveiðum og hentu þá hákarlsskrokkinum oní haf. Slíkt nokkuð laðaði aðra hákarla að skipinu, jafnvel upp í yfirborð. Þá var hinn sögulegi hákarlamaður vitni að því þegar að rándýrið hákarlinn óð frjáls ferða sinna í sjávarborðinu, jafnvel í miklum fjölda, í þeim eina ásetningi að gæða sér á dauðum félögum sínum – og þá skutluðu hákarlamennirnir hákarlana oft í yfirborðinu: „Hafa menn gefið hákarli æti og leikið sér við að skera hann og stinga, meðan á máltíðinni stóð, án þess að það virðist trufla svo mikið sem borðbænina“ segir í Skútuöldinni.Lýsishákarlaveiðar koma sumpart fyrir sjónir sem óvæginn veiðiskapur þar sem lítill gaumur var gefinn að líðan hákarlsins þegar hann var stunginn og ristur á kvið svo hægt væri að fjarlægja lifrina, áður en honum var sleppt og dauður hákarlinn sökk í dauðadjúpið. Hákarlamenn höfðu enga samkennd með hákarlinum. Lýsisveiðarnar minna á vissan hátt á umdeidlar uggaveiðar erlendra þjóða á hákarlinum í dag þar sem aðeins uggarnir eru hirtir af hákarlinum og þeim hent oní hafið þar sem þeir hljóta hægan dauðdaga.

Í endurminningum hákarlamanna lýstu þeir hákarlinum gjarnan sem mótherja sínum og þá jafnvel vísað til þess að mennirnir ættu í átökum og jafnvel í orrustu við óvininn hákarlinn – og þá vísuðu hákarlamennirnir jafnvel til veiðarfæra sinna sem vopna. Það var ekki óalgengt að hákarlamenn persónugerðu hákarlinn, það er þeir ljáðu honum mannlega eiginleika. Slíkt nokk kemur ekki á óvart því sjómenn fyrr á öldum persónugerðu oft náttúrufyrirbæri, ekki síst fyrirbæri sem þeir þurftu að takast á við líkt og hafísinn. Í frásögnum hákarlamanna frá 19. öld er hákarlinn iðulega karlgerður, líkt og aðal heiti hans hákarlinn og gamli gráni bera með sér og þar áður háskerðingur – en hákarlinn var kvengerður á öldum áður þegar að það tíðkaðist að kalla hann hákerling. Það sem einkennir viðhorf hákarlamanna til hákarlsins sem lífveru er ekki síst hve þversagnakennd þau viðhorf eru. Hákarlamenn báru sannarlega vissa virðingu fyrir hákarlinum, ekki bara sem andstæðingi sínum heldur sem rándýri, þegar þeir vísuðu til stærðar hans, styrks, beittra tanna og einstakrar þefnæmi. Á sama tíma lýstu hákarlamenn hákarlinum sem silalegum fiski, kjarklausum, lötum, ljótum, dyntóttum, sljóum og undirgefnum þegar hann var fastur á króknum. Hákarlinn hafði orð á sér fyrir að vera mjög matvandur sem olli því að hákarlamenn lögðu mikla vinnu á sig við að útbúa beituna m.a. var vinsælt að fylla selkópa af rommi. Þá var stundum grínast með það að gamli gráni væri drykkfelldur því hann væri sólginn í romm. Hákarlmenn álitu megin veikleika hákarlsins vera grægðina í honum sem gerði hann að auðveldri bráð. Í viðhorfum hákarlamanna til hákarlsins eimir af kunnri afstöðu til rándýra sem afræningja, að hákarlinn sé réttdræpur því hann étur úr forðabúri hafsins og sýnir sjálfur enga miskunn í veiðum sínum; einfarinn sem étur eigin tegund: Hvurnig er hægt að finna til með skepnu sem étur sína líka er sterkur undirtónn að baki viðhorfa hákarlamanna til hákarlsins. Neikvæð ímynd hákarlsins mótaðist einnig af tilhneigingu hans til að flækjast í veiðarfæri sjómanna. Einn 19. aldar hákarlamaður sagði að íslenskir sjómenn bölvuðu og rögnuðu hákarlinum meira en öðrum fiskum því hákarlinn flækti sig í veiðarfærum sjómanna og skemmdi þau, hann skrifaði:

 

Marga fiska hefi ég séð dregna úr sjó, ég held nærri því flestar tegundir þeirra, sem almennt eru veiddar og hafa verið veiddar á Íslandsmiðum. Engum þessara fiska hefi ég heyrt valin eins óvingjarnleg orð og hákarlinum. Sjómenn höfðu það fyrir vana lengst af fyrir norðan, alla tíð meðan ég fór á sjó, að bölva þessum fiski í sand og ösku, væri hann annars nefndur á nafn... En sjálfir hákarlakarlarnir, sem oft lögðu ekki lítið í sölurnar til að veiða hákarl, bölvuðu honum líka. Kannski fylgdi hjá þeim ekki alltaf hugur máli. Fyrir norðan land var hákarlinn sá allra fiska helstur, sem drýgstan þáttinn átti í að forða fólki frá hungurdauða í hallærum og harðindum. (Jón Dúason)

 

Hér sáum við gott dæmi um hvurnig afstaða manna til hákarlsins sem lífveru og afurðar gat stangast á; lífveran hákarlinn var afræningi á meðan afurðin hákarlinn var lífsbjörg. Fróðlegt er að sjá að 19. aldar hákarlamenn lýstu gjarnan sjálfum sér og samskipsmönnum sínum á svipaðan hátt og þeir lýstu hákarlinum. Hákarlamönnum var oft lýst sem framandlegum, frumstæðum, sérstæðum og jafnvel forneskjulegum mönnum á jaðri samfélagsins, í hákarlaverum eða á hafi úti;   ofursterkir þjösnalegir menn sem reyndu krafta sína við gamla Ægi, gamla grána og sín á millum í glímum og slagsmálum; menn sem voru taldir geta drukkið manna mest af brennivíni og lýsi og étið manna mest. Hákarlinn, líkt og hákarlamaðurinn, kemur einnig fyrir sjónir sem stór, frumstæð, forn, svolaleg og villt vera, sem stýrist af veiðieðli sínu og kann sér ekki hóf. Einn hákarlamaður sagði í gríni  að hákarlinn væri drykkfelldur því hann var sólginn í rommkópa sem notaðir voru sem beita (selkópar gegnsósa af rommi voru taldir afbragðs beita fyrr á tímum).

 

Nútímans hákarlaveiðar koma einnig fyrir sjónir sem veiðiskapur þar sem lítill gaumur er gefinn að líðan hákarlsins sem situr fastur á öngli í marga daga í senn. Hákarlamennirnir kváðust enga samkennd hafa með hákarlinum, með vísun í að hákarl væri eins og hvur annar fiskur. Mennirnir sögðust ekki leiða hugann að sársaukanum sem hákarlinn upplifði við veiðarnar, slík hugsun samræmdist ekki veiðskapnum, sársaukinn var hluti af veiðunum – fjarlægur líkt og hákarlinn í djúpinu. Samskonar viðhorfa gætti einnig í þeim viðtölum mínum er komu inn á veiðar á hákarli sem meðafla: „Í eitt skipti vorum við að veiða stórlúðu í Barentshafinu þegar að stór hákarl flæktist í línunni – þá kom skýringin á því hvers vegna við vorum bara að fá lúðuhausa. Svo við beittum stórum hákarlakrókum til þess að veiða ræningjana, hákarlana – þeir voru bara eins og múkkarnir í okkar augum. Við veiddum sjö hákarla“ sagði einn viðmælandi minn sem starfaði sem sjómaður á línubáti og bætti við: „Maður var ekkert að spá í hákarlinn eða lífi hans, hann lítur út eins og hann sé hálfdauður þegar hann kemur upp á yfirborðið – eins og hræ“ sagði hann en lýsti jafnframt samkennd sinni með afræningjunum háhyrningunum sem átu af krókunum á línunni í sama túr og skipstjórinn skaut á: „Hann hæfði einn en þeir slitu línuna í kjölfarið – háhyrningar eru svo greindir.“ Í samanburðarskyni spurði ég viðmælendur mína nútímans hákarlamennina út í viðhorf þeirra til landdýra og annarra sjávardýra og nytjun manna á þeim. Hákarlamennirnir höfðu meiri samkennd með landdýrum en sjávardýrum, sérílagi húsdýrum en misjafnt var hvort að þeir höfðu meiri tengsl við og samkennd með spendýrum í hafi umfram fiskinn hákarlinn: „Ertu að meina tilfinningatengsl? Þau eru bara engin held ég. Þetta eru bara dýr, stór dýr í sjónum, mér finnst sjálfsagt að veiða það. Ég ber enga sérstaka virðingu fyrir hvölum, alls ekki.“ Samband manna og fiska eru eðli málsins samkvæmt með öðru sniði en samband manna við landdýr og spendýr í sjó. Landdýrin mennirnir eiga mun auðveldara um vik að eygja og ávarpa spendýr í sjó en fiska og um leið persónugera sjávarspendýrin út frá ásýnd þeirra og hljóðum, til að mynda hvalina og selina. Gjarnan er vitnað í fegurð og tignarleik hvala en slíkar lýsingar eru ei viðhafðar um hákarlinn: „Ég hef alveg upplifað það að vera inn í hvalavöðu þar sem eru bæði hrefnur, höfrungar og háhyrningar og hnúfubakar, sem eru í torfum – og þetta eru tignarleg dýr í sjónum“ sagði einn hákarlamaðurinn. Hákarlinn heldur sig almennt djúpt (á bilinu 100-1200 metra dýpi) og því sjá menn hann sjaldan með berum augum. Hákarlinn var yfirleitt kominn á öngulinn þegar viðmælendur mínir hákarlamennirnir sáu hann fyrst á lífi: „þú sérð auðvitað ekki hákarl vaða eins og beinhákarl, ég veit ekki til þess.“ Sýnileiki hákarlsins var mun meiri þegar hann var veiddur á handfæri fyrr á tímum og menn hentu hákarlinum í sjóinn þegar þeir voru búnir að hirða lifrina – nokkuð sem leiddi til þess að hákarlar fóru að vaða í kringum skipin og hákarlamennirnir skutluðu þá jafnvel í yfirborðinu: „þá voru bræður hans viðbúnir að taka á móti og fá sér bita þegar þeir óðu ofansjávar sem oft kom fyrir. Þá komu löngu hakarnir í góðar þarfir,“ skrifaði einn fortíðarhákarlamaður. Viðmælendur mínir nútímans hákarlamennirnir sáu sjaldan glitta í hákarla sem voru frjálsir ferða sinna en ef svo bar undir þá sást hákarlinum bregða fyrir rétt undir yfirborðinu í ætishugleiðingum: „Já ég varð vitni að því oftar en einu sinni að maður sá hákarl koma á eftir svona étnum hákarli, maður rétt sá hann í sjónhendingu, en engin læti neitt, hann var þarna – fylgdi hræinu,“ sagði einn viðmælandi minn. Viðhorf hákarlamanna til hákarlsins sem lífveru var að mestu bundin við hanteringar þeirra á hákarlinum sem afurð, þ.e.a.s. þegar mennirnir fóru að verka hákarlinn þá urðu þeir margs vísir um lifnaðarhætti og náttúru hákarlsins, allt frá kyni til magainnihalds hákarlsins sem varpaði sínu ljósi á ætishegðan hans, og einnig hegðan dýranna sem hákarlinn nærist á. Fróðlegt var þó að sjá hve mikla innsýn hákarlamenn samtímans höfðu í atferli hákarlsins út frá verkuninni; það er að segja að þegar að þeir gerðu að hákarlinum þá sáu þeir hvað hann hafði verið að éta fjölbreytta og oft stóra bráð, nokkuð sem vitnaði um hæfni hákarlsins sem rándýrs. Þá mátti greina lotningu í rödd mannanna er þeir reifuðu bráð hákarlsins. 


Hákarlaveiðisagan hverfist í grunninn um sambandið millum hákarlsins og veiðimanna en það koma einnig önnur dýr við sögu; dýr neðanvatns, ofan vatns og í landi, sem eru samofin sögu Íslendinga og hákarlsins. Hér um ræðir dýrin sem voru notuð sem hákarlabeita, til að mynda selurinn, hross (aflóga hross), hnísur og svo lengi má telja. Aukinheldur dýrin sem hákarlamenn mættu á veiðunum, eins og afræninginn múkkinn sem reyndi að hremma hákarlalifrina úr höndum veiðimannanna, eða lúsin á skrápi hákarlsins er boðaði komu hans úr hafinu. Og dýrasaga hákarlsins býr einnig að dýrum þeim sem hákarlinn etur og koma í ljós er hákarlamennirnir gera að hákarlinum og opna maga hans;  selur, þorskur, steinbítur, lúða, skata, hnísa, smokkfiskur, krabbi, marglyttur, sjófuglar – og jafnvel lax og hrefna. Dýrasaga hákarlsins spannar einnig kæsingarferlið þar sem bakteríuflóra kviknar til lífsins, uns hann er að lokum hengdur upp, og þá kemur til sögunnar erkifjandi hákarlaverkandans flugan. Jafnvel ísbjörninn er hluti af dýrasögu hákarlsins, því margar sögur af fortíðinni segja frá ísbjörnum sem lögðu leið sína í ilmandi hákarlahjalla og enn aðrar sögur segja frá því þegar bændur notuðu hákarlaveiðitól sem vopn gegn ísbjörnum.

Í meistaraverki Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenskir sjávarhættir, segir að hákarlinn hefur yfir 90 heiti, sem vitnar um sérstöðu hans í íslenskri veiðimenningu – en eingöngu þorskurinn hefur fleiri heiti segir Lúðvík. Fjöldi íslenskra heita yfir hákarlinn vitnar um sérstöðu hans í íslenskri veiðimenningu. Landsmenn hafa um aldir varðveitt fróðleik um veiðar og verkun á hákarlinum, allt frá skrifum alþýðumanna og sagnaritara, til varðveislu efnismenningar hákarlaveiða og hákarlaverkanda, svo sem Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn, Hús Hákarla-Jörundar í Hrísey, og varðveisla hákarlaskipsins Ófeigs í Byggðasafninu á Reykjum eru ágæt dæmi um. Víst er að hákarlalýsið sem notað var til ljósa var ein af verðmætustu útflutningsvörum Íslendinga í aldaraðir, hins vegar var hákarlalýsið aldrei rótgróinn þáttur í ímynd þjóðarinnar, hvort heldur sjálfsmynd hennar eður ytri ímynd, ólíkt því sem gildir um hákarlinn í fæðuformi. Neysla Íslendinga á kæstum hákarli hefur löngum undirbyggt ímynd þeirra sem framandi eyþjóðar, jafnvel enn í dag þó svo að Íslendingar neyti hákarls ærið sjaldan og þá helst á þorrablótum: „Hann hefur skapað sér sess sem ómissandi hlutur hjá okkur Íslendingum á þorrablótum“ sagði einn hákarlamaður í viðtali mínu við hann. Hákarlinn er tíðast nefndur í afurðarformi í hérlendum sögulegum og skálduðum heimildum, enda birtist hann landsmönnum jafnan sem fæða, líkt og fiskar gera almennt – nokkuð sem mótar viðhorf manna til fiska sem fæðu fremur en lífvera. Hákarlinn í afurðarformi á sér ótal þversagnakenndar birtingarmyndir í Íslandssögunni, þar sem hann kemur fyrir sjónir sem fátækramatur, táknmynd ómenningar, bjargræði þjóðarinnar í harðindum, ærið gömul fæða, eitruð fæða (nýr hákarl), gjaldmiðill, þjóðarréttur, sparimatur, þorramatur og læknislyf: „Hákarl er góður fyrir konur með mjólk í brjóstum,“ sagði hákarlamaður í Vestmannaeyjum í blaðaviðtali árið 1972. Beinar hákarlaveiðar eru fágætar í dag en þeim mun algengara er að hákarlaverkendur (sem stunda ekki sjálfir veiðar) kaupi hákarl sem veiðist sem meðafli af íslenskum toguruum. Hér um ræðir hákarl sem áhafnir hirða, skera í búta, frysta og selja verkendum. Téðir hákarlaverkendur búa ekki að eins ríkri þekkingu á hákarlinum og hákarlaveiðimenn sem stunda ætíð verkun samhliða veiðunum, því hinir síðarnefndu fá innsýn í atferli og líffræði hákarlsins út frá veiðunum og þegar þeir gera að honum (magainnihald, kyn, kynþroski (egg) ofl.) 

 

Hefðbundin aðferð til að útbúa hákarl sem fæðu felst í því að kæsa hann; aðferð sem hefur í reynd haldist að mestu óbreytt um aldir. Verkunin sem og afurðin tákna vissa seiglu og aðlögunarhæfni þjóðarinnar, ekki síst á harðindatímum í sögunni. Hákarlaverkun hefst með því að veiða hákarlinn, búta holdið niður og kasa holdið nálægt fjörðuborðinu í nokkrar vikur eða í lengri tíma. Hákarlinn gerjast vegna áhrifa örvera sem kemur í veg fyrir skemmdir og leyfir háum styrk trímetýlamínoxíðs (TMAO) að smám saman renna úr kjötinu, sem gerir það öruggt til neyslu. Hákarlaveiðimenn/verkendur 20. og 21. aldar héldu áfram að vinna hákarl á sama hefðbundna hátt og forfeður þeirra. Hins vegar í stað þess að grafa hákarlinn ofarlega í fjöruborðið þá gerjuðu nútímaverkendur holdið í götóttum trékössum og síðar plastkerum: "Þetta er skítastarf - þú kemur alltaf heim lyktandi af ammoníaki," sagði einn hákarlamaðurinn í viðtali mínu við hann. Fróðlegt var að heyra ýmsar sagnir verkenda af óvinnandi hákörlum og tilgátum því tengt (s.s. með hliðsjón af kyni, kynþroska eða skemmdum í holdinu o.fl.): „Það var alltaf sagt að það væri ekki hægt að verka eggjahákarlana, þeir verkuðust ekki, en það er vitleysa, ég hef verkað marga svoleiðis." Það var samróma álit viðmælenda minna hákarlaveiðimannanna/verkendanna að hákarlaverkun væri einkar sóðalegt starf – ekki síst með vísan til stæku lyktarinnar sem kemur til við verkunina. Viðmælendur mínir töluðu gjarnan um holdið sem þeir verkuðu sem lifandi væri og það er ekki að undra, því hákarlsholdið öðlast að segja má líf að nýju í verkunarferlinu sökum merkilegs örverusamspils í kæsingunni. Kæsing hákarlaholdsins leiðir til þróunar fjölbreytts örverusamfélags þar sem holdið þjónar sem búsvæði fyrir ýmsar bakteríur. Í kjölfar þess að hákarlinn er búinn að liggja og kasast er hann tekinn upp og skorinn í lykkjur sem eru hengdar í hákarlahjall til þurrkunar í nokkrar vikur eða mánuði. Þessi vinnsla á hákarlinum, hvort heldur um ræðir kæsinguna eða þurrkunina, gerir það að verkum að hákarlinn er ætilegur í langan tíma. Kunnugt þrástef í sagnararfi Íslands byggir á því að þeim mun eldri sem hákarlinn er þeim mun betri er hann á bragðið – nokkuð sem hákarlaverkendur samtímans véfengja og vísa til þess að holdið fari á vissum tímapunkti að hnigna, þó svo að sögur gefi til kynna að kæstur hákarl geti elst takmarkalaust. Aldur hákarlsins getur birst sem ákveðið frásagnarminni í íslenskum sögnum, til að mynda hinn tólf ára gamli hákarl sem birtist títt í þjóðsögum.

 

Langt geymsluþol verkaðs hákarls sem og tíðar breytingar á bragðinu eftir því sem hákarlinn eldist í afurðarformi, hefur stuðlað að goðsagnakenndri ímynd af kæstum hákarli sem lifandi veru í íslenskum bókmenntum og menningu. Hákarlinn sem afurð eldist og þroskast sem lifandi væri. Hákarlinn býr að dulúð og kynngi sem fellur vel að vættarheimi Íslendinga, þar sem verur á borð við tröllkonur leggja hákarlinn sér til munns. Dulúð hákarlsins sem afurð byggir einnig á dulúðinni sem hverfist um tilvist hákarlsins sem lífveru – og jafnvel þegar hann er örendur, en margar sagnir eru til af því hve lengi hákarlinn hreyfir sig eftir að honum hefur verið sálgað og hann færður á land.

 

Vinsældir hins kæsta hákarls hafa dofnað meðal yngri kynslóða, en um leið hefur hákarlinn sem afurð notið vinsældar í vaxandi ferðaþjónustunni, þar sem holdið er hluti af athöfn að segja má; sem grundvallast á viðbrögðum þess er etur holdið. Hákarlaholdið er gjarnan kynnt ásamt íslenska áfenginu brennivíni (þekkt sem Svartidauði), sem hákarlaveiðimenn notuðu sögulega til að halda á sér hita. Að borða kæstan hákarl er talin vera karlmannleg athöfn, með hliðsjón af sérstæðu bragði holdsins, karlkyns ímynd dýrsins, og karlmennskuhugmyndum í tengslum við sjálfar veiðarnar. Þrátt fyrir sögur um næringargildi og lækningarkraft (t.d. fyrir magaveika) hákarlsins hafa vísindarannsóknir sýnt að neysla hins langlífa hákarls getur verið áhættusöm vegna þess að hann inniheldur mikið kvikasilfur.

Sjá nánar um skrif Dalrúnar um hákarlasöguna.

bottom of page